Mér leið ekki vel eftir bankaferðir mínar í dag, sármóðguð og svikin gekk ég út úr seinni bankanum og leið hálfpartinn eins og ég hefði verið misnotuð!!
Ég er að leggja land undir fót í byrjun desember og af ótta við frekara frjálst fall krónunnar ákvað ég að hafa vaðið fyrir neðan mig og reyna að sanka að mér eins og nokkrum pundum.
Fyrst lá leið mín í Banka A þar sem ég er með einn lítinn auman reikning (N.B. ekki virkur launareikningur) sem er ekki ofurmikil innistæða á en alltaf einhver hreyfing þó. Ég þurfti að vísu að framvísa farseðli til að mega kaupa pund og úr því að ég er viðskiptavinur bankans þá mátti ég kaupa pund fyrir 50 þúsund krónur íslenskar. Gekk þaðan út á einhvern hátt furðusátt þrátt fyrir þessar takmarkanir með 260 pund í vasanum.
Efaðist þó um að þetta skotsilfur myndi duga mér í 3 vikur í UK og gekk því nokkra metra og inn í Banka B. Þar kvaðst ég vilja kaupa pund og gaf upp kennitöluna mína. Gjaldkerinn tjáði mér það að ég mætti kaupa gjaldeyri fyrir 10.000 kall. Ég hváði og hún sagði mér það að úr því að ég er ekki viðskiptavinur bankans gæti ég ekki keypt fyrir meira. Þá hélt ég nú að ég myndi missa andlitið og sagði stúlkunni að víst væri ég viðskiptavinur bankans en banki þessi geymir nær alla þá peninga sem ég á í öllum heiminum. Hún fór eitthvað og athugaði málið, kom svo stuttu seinna og sagði að hún hefði getað séð það að ég væri með vörslureikning hjá þeim í eignastýringu en engar færslur inn eða út af reikningi þessum hefðu sést síðasta mánuðinn. Þetta þyrfti að vera virkur launareikningur til að ég teldist viðskiptavinur og fengi að kaupa gjaldeyri fyrir áðurnefndar 50 þúsund krónur sem alvöru "viðskiptavinum" bankans eru settar takmarkanir um. Ég fussaði og sveiaði í huganum en var hreinlega of sár og hvumsa yfir þessu til að segja nokkuð af viti, benti henni nú samt á að lokað hefði verið fyrir öll viðskipti á þessum vörslureikningi þegar landið fór á hausinn og þótt ég vildi hefði ég ekkert getað nálgast af þessum peningum eða búið til inn/út færslur af reikningnum í einhverjar vikur. Svo gekk ég út með andlitið í lúkunum!
Mér finnst þetta vera þvílíkur dónaskapur og svik, og myndi ekki kalla þennan banka í dag vin minn frekar en þeir viðja kalla mig vin sinn. Þeir halda aleigu minni í gíslingu, nær allur peningur sem ég á er hjá þeim - ég fæ ekki að nálgast hann - og svo slengja þeir því framan í mig að ég er ekki viðskiptavinur þeirra og fái þar af leiðandi ekki að kaupa hjá þeim skitin 250 pund þrátt fyrir að vera með gildan farseðil í höndunum. Ég veit ekki hvað ég get annað gert en að fela bankanum umsjón með öllum mínum monningum til að teljast viðskiptavinur.
Langt síðan ég varð svona ofsalega hissa, þetta er nú meira kúkaástandið! Þetta var vægast sagt mjög súr upplifun, ekki bara fíaskóið hjá Banka B heldur líka bara það að fá ekki útlenska peninga nema fyrir fyrirframákveðna upphæð (sem gefur manni ekki marga útlenska peninga í dag) og gegn framvísun einhverrar sönnunnar þess að maður sé nú í alvörunni að fara til útlanda á næstunni. Það var eins og væri búið að hernema landið og fylgst með hverju fótmáli manns, ég stóð mig meira segja að því á leiðinni heim úr þessari fýluferð að líta tortryggin í kringum mig í leit að einhverjum sem væri að fylgjast með mér og skrá niður hvert mitt spor.
Ég geri mér fullvel grein fyrir því að ástandið er alls staðar í hassi og eflaust eru þessar takmarkanir á úttektum að einhverju leyti nauðsynlegar, þess vegna mætti ég á staðinn með nauðsynleg ferðagögn og skilríki og annað. Ég var samt illa svekkt yfir því að fá ekki að njóta sömu "fríðinda" og aðrir "viðskiptavinir"bankans þrátt fyrir að hafa verið í viðskiptum við hann í nokkurn tíma!!!
miðvikudagur, október 29, 2008
þriðjudagur, október 21, 2008
Þó að maður segi...
...Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessi breyting veldur.
Þá þýðir það ekki að allt sé bara í lagi, helv... flugfélag!!!
Þá þýðir það ekki að allt sé bara í lagi, helv... flugfélag!!!
fimmtudagur, október 16, 2008
Ég er.....
.........mögulega, kannski, hugsanlega ekki í svo mikilli klípu (á einn hátt) !
Á annan hátt er ég samt ennþá í klípu.......en hver er það ekki á þessum síðustu og verstu?
Á annan hátt er ég samt ennþá í klípu.......en hver er það ekki á þessum síðustu og verstu?
miðvikudagur, október 15, 2008
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)