Þetta átti að koma inn í gærkvöldi en það er stundum vesen að setja inn færslur heima á kvöldin, skil ekki af hverju
Semsagt fimmtudagur 25/05 06 klukkan eitthvað seint um kvöld:
Sælinú þið örfáu hræður sem lesið þetta fábrotna svokallaða blogg mitt. Nú er ég stödd í krísu í lífi mínu, er að fara í lokapróf á laugardag og á mánudag og á jafnframt eftir tonn að verkefnum sem ég hef á milli 8 og 16 á morgun til að vinna og skila því annars fæ ég ekki próftökurétt. Veit ekki alveg hvernig ég ætla að toga það af en sjáum til, mér finnst einhvernveginn að röðin sé komin að mér að fá að upplifa kraftaverk eftir allt djöfuls stappið sem ég hef staðið í þetta árið. Er búin að vera að bíða í kraftaverkaröðinni allt of lengi og fá bara kastað í mig tómötum og úldnum eggjum og ég er ekki einu sinni að biðja um stórt kraftaverk, bara oggopoggopínulítið kraftaverk. Jæja, það sem ég vildi sagt hafa er að ég verð líklega ekki mjög virk í bloggheimum næstu 4-5 daga eða svo, þó er aldrei að vita nema soðna steikta hugsýkisgeðsjúka heila mínum detti skyndilega eitthvað agalega sniðugt í hug og þá mun ég vitaskuld deila því með ykkur. Vildi samt gefa ykkur þann fyrirvarann á að ég segi bara alls ekki neitt. Annars fór ég og sótti móður mína upp í hesthús í gær þegar klukkan var komin nokkuð yfir miðnætti því hún var í hinu árlega partýi sem fylgir hesthúsinu hennar. Og já greinilega alltaf jafnmikið fjör þar á bæ. það er eitthvað svo dýrmætt að sjá mömmuna sína sem maður er alltaf svolítið að passa upp á skemmta sér svona ofboðslega vel umkringda fullt af góðu fólki sem er alltaf svo gott við hana og vill voða mikið hjálpa henni í þessari hestamennsku sem hefur reynst henni misvel hingað til. Ég er svo ánægð með hana og mér finnst svo gott að vita af henni í þessum góða félagsskap og ég er ótrúlega rosalega ánægð með nýja hestinn hennar. Loksins er hún búin að fá gæðahrossið sem hún á skilið, ótrúlega vel ættaða og geðgóða eðalmeri sem ber nafnið Askja og mamma er algjörlega ástfangin af því hún er svo góð og skemmtileg. Vildi bara segja ykkur frá þessu því ég brosti allan hringinn og fékk hlýtt í hjartað þegar ég fór og náði í mömmu og allir sátu saman inni í húsi drulluvel kenndir, syngjandi sig hása við gítarspil. Og mamma vildi bara ekkert fara heim svo ég hafði ekki hjarta í mér að draga hana úr þessari gleði þannig að ég söng bara með þó ég væri með hugann við bækurnar sem ég átti að vera að lesa í dag. Mamma mín er yndisleg og mér þykir vænt um hana. Ég á líka yndislegustu systir í heimi sem mér þykir líka ofboðslega vænt um. Heyrinú, ég bara orðin akút væmin. Jæja nóg af þessu, heyri í ykkur bráðum, vonandi að ég skrifi línu fyrr en seinna, það verður amk gefin skýrsla um flutninginn mikla norður í land. Talandi um flutninga, til hamingju með nýja húsið Árdís og Guðjón!!!
föstudagur, maí 26, 2006
mánudagur, maí 22, 2006
Snjór og mjólk
Veðrið hér er hið undarlegasta mál. Í gærmorgun settist ég út á litla skjólgóða hellupallinn minn því það var glampandi sól og ég nennti ekki að sitja inni og lesa. Ég dreif mig þess vegna út með púða til að sitja á og námsbók að lesa. Lofthitinn var nú ekkert sérstaklega mikill en þegar sólin skín og ekki er of hvasst þá verður alltaf algjör steik á litla pallinum mínum svo mér leið bara rosalega vel á stuttbuxum og hlýrabol. Þá fór alltíeinu að snjóa á mig ! Reyndar bara pínulítil snjókorn en þau hrundu á mig í þessari glampasól og mér fannst það bara voða notalegt. Aldrei hef ég verið í sólbaði í snjókomu áður ;) Nú er hins vegar kominn fimbulkuldi, rok og engin sól. Þá er best að vera bara inni hjá sér. Jæja, kominn tími til að kynna ykkur fyrir öðrum vini mínum nú þegar þið hafið kynnst Emil, þessi nýji vinur heitir Hitoshi og honum finnst mjólk vera best í heimi, muuuuuu, tékkið á honum, hann er töff. Friður og út
laugardagur, maí 20, 2006
Silvía Nótt vs. Emil besti
Silvía Nótt er átrúnaðargoð yngstu kynslóðarinnar á Íslandi í dag. Nú gráta sig ótal margar litlar stelpur í svefn yfir þeim harmleik að fá ekki að sjá hana keppa í úrslitum júróvisjón. Emil er hins vegar mitt átrúnaðargoð og ef þið viljið kynnast honum smellið þá hérna, það er þó algert skilyrði að hafa hljóðið á! Trúið mér þið verðið ekki söm eftir að hafa kynnst Emil vini mínum :)
fimmtudagur, maí 18, 2006
Úr yndi yfir í óyndi
Í gærkvöldi fór ég að sjá CocoRosie að spila á Nasa. Það var gaman og indælt, þær eru flottar. Samt sá ég eiginlega barasta ekki neitt mest allan tímann því að það var risastór maður (sem við héldum fyrst að væri stóri mikli maðurinn úr Lost þáttunum en reyndist svo ekki vera heldur bara gaur sem var óeðlilega líkur honum) þurfti endilega að planta sér beint fyrir framan okkur. Þar sem þessi maður var nokkrir metrar á hæð og amk 1 meter á breidd þá þurfti ég að beygja mig og reigja á alla kanta til að sjá glitta í músíkantana. CocoRosie systurnar komast einhvern veginn alveg upp með að vera svona rosalega artý krúttkynslóðar-píur því þær hafa í þó þann hæfileikann að vita hvaða hljómar og melódíur falla vel að mannlegu eyra og gera flotta músík. Þess vegna eru þær töff en ekki bara skvísur sem eru að reyna að vera töff. Ég var amk bara ljómandi ánægð með þennan konsert. Í dag hefur hins vegar verið eitthvað djöfuls óyndi í mér. Ekkert hefur gengið almennilega upp og ég verð pirruð. Þá fer ég að hugsa, segja og gera undarlega, skrítna og asnalega hluti sem Sigrún skammar mig fyrir að hugsa, segja eða gera. Nú hlakka ég bara til að komast í nýtt umhverfi og gerast kúreki norðursins. Á morgun kemur hins vegar nýr dagur og þó ég sé hætt að bíða eftir nýjum tækifærum þá getur maður alla vega þóst byrja á núlli eina ferðina enn. Hver veit, kannski ég skelli mér í powergöngu eftir vaktina annað kvöld og leiti á vit ævintýranna, sjalalalala, þau (ævintýrin) enn gerast, vonum það bara.
miðvikudagur, maí 17, 2006
Sólin, geðrof og kalli kanína - 16/05 2006
Mikið hefur þessi dagur 16 maí verið undarlegur, og því lengra sem liðið hefur á hann því undarlegri hefur hann orðið. Ég ætla ekkert að vera að útlista fyrripart dagsins og hef því söguna um klukkan hálfáttaleytið þegar ég kom heim til mín. Byrjaði fyrst á því að rembast eitthvað við að læra um leið og ég dáðist að nýju buxunum mínum sem ég fjárfesti í fyrr í dag. Þetta gekk allt saman eitthvað ofurbrösuglega svo ég ákvað að skella mér út úr húsi. Já ég ætlaði í powergöngu, göngu sem hafði tvíþættan tilgang. Annars vegar til að losa mig við einhverja sálarspennu sem ég var farin að finna fyrir og hins vegar til að hreyfa á mér botninn. Ok svo ég geng af stað og þar sem ég geng meðfram sjónum á leið út í Gróttu sé ég alltíeinu Snæfellsjökul blasa við mér. Sjaldan hefur hann verið jafn fallegur svo skýr og flottur með setjandi sólina sér við hlið. Hann var eins og eitthvað ómótstæðilega girnilegt sælgæti sem mig langaði til að háma í mig. Eins og bersýnilega hefur komið fram fannst mér þetta fögur sjón svo ég held áfram göngu minni þarna meðfram sjónum og sólin kemur meira og meira í ljós þar sem hún sígur undan skýjunum til að leggjast til náðar í sjónum. Svo ég staldra við og horfi á þessa fögru sjón með einhverja melankólíska melódíu í eyrunum (var sko með mp3 spilarann með mér). Svo er þetta skyndilega allt eyðilagt fyrir mér þar sem eitthvað vibbapar stendur beint í sjónlínu minni og kyssist og kjammsast eitthvað voða rómó að horfa saman á sólsetrið. Ég hugsa bara "oj, fáið ykkur herbergi", þurfti ekki á þessu að halda og varð eitthvað pirruð á þessum ósóma svo ég sneri við í fússi mínu. Og þá fór að rigna. Og svo var ég með fullt af blindum blettum í augunum eftir að hafa horft svona mikið í sólina og sá varla hvert ég var að fara. Hugsaði bara, þetta kennir þér Hulda að fara ekki eftir því sem þér var kennt, maður verður jú blindur af því að horfa beint í sólina ekki satt? Ég sá semsagt sýnir, sem titillinn hér að ofan (geðrof) á að vitna til, verð þó að viðurkenna að einu raddirnar sem ég heyrði voru þær sem hljómuðu í mp3 spilaranum mínum en það er ekki laust við að ég hafi samt haft einverjar ranghugmyndir og klárlega var einhver veruleikafirring í gangi eða í þvað minnska óraunveruleikatilfinning. Jæja ég sný alla vega við og legg af stað aftur heim og nú er kannski mál að segja frá því að einu sinni setti ég fullt af ótrúlega skrítnum lögum inn á spilarann minn en síðan hef ég aðallega verið að hlaða inn einhverju drama og rólyndismúsík. Og ég geng áfram. Þegar ég er svo að nálgast Grandaskóla í mínum pirringi og mínum melankólíska fíling hlustandi á Jeff Buckley, Tom Waits, CocoRosie eða eitthvað álíka gerist tvennt mjög skrítið, eða ég upplifði það amk þannig. Næsta lag á mp3 spilaranum mínum er súrmjólk í hádeginu með honum Bjartmari og honum þarna Eiríki eitthvað, rauða eða heppna eða Hauks eða hvað hann nú hét þarna Laddakarakterinn með gítarinn og hárið og um leið og það lag byrjar að spila þá geng ég fram á litla sæta kanínu sem situr í ró og næði á leiksvæði Grandaskóla. Ég bara varð að stoppa aðeins og brosa pínu, svei mér þá ef ég fór ekki bara soldið að hlæja. Þetta er kannski ekkert sniðugt svona in retrospect en fyrir mér á meðan á þessu öllu stóð þá var þessi ganga öll bara alveg stórmerkileg. Svo þegar ég var komin heim þá var hárið mitt fast í peysunni og ég lenti í stökustu vandræðum með að losa mig úr djöfli sextíuogsexgráðurnorður. Svei mér þá, held ég treysti mér ekki í gönguna mína á morgun nema að hafa fylgd með mér! Samt óneitanlega svolítið hræðilega spennandi að vita hvað næsta orkuganga ber í skauti sér.??
sunnudagur, maí 14, 2006
CocoRosie og sólin
Bókstaflega það sem gert hefur verið í dag, hlusta á CocoRosie og liggja í sólinni, jú og þykjast læra smá. Fór samt í blómabúð í morgun og keypti túlípana handa bestu mömmu minni :)
laugardagur, maí 13, 2006
Bara að prufa
Þetta hef ég nú aldrei gert á ævi minni, bloggað! Held eg ætli ekkert að vera neitt að því en langaði samt að prufa að búa til svona apparat
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)