fimmtudagur, maí 18, 2006
Úr yndi yfir í óyndi
Í gærkvöldi fór ég að sjá CocoRosie að spila á Nasa. Það var gaman og indælt, þær eru flottar. Samt sá ég eiginlega barasta ekki neitt mest allan tímann því að það var risastór maður (sem við héldum fyrst að væri stóri mikli maðurinn úr Lost þáttunum en reyndist svo ekki vera heldur bara gaur sem var óeðlilega líkur honum) þurfti endilega að planta sér beint fyrir framan okkur. Þar sem þessi maður var nokkrir metrar á hæð og amk 1 meter á breidd þá þurfti ég að beygja mig og reigja á alla kanta til að sjá glitta í músíkantana. CocoRosie systurnar komast einhvern veginn alveg upp með að vera svona rosalega artý krúttkynslóðar-píur því þær hafa í þó þann hæfileikann að vita hvaða hljómar og melódíur falla vel að mannlegu eyra og gera flotta músík. Þess vegna eru þær töff en ekki bara skvísur sem eru að reyna að vera töff. Ég var amk bara ljómandi ánægð með þennan konsert. Í dag hefur hins vegar verið eitthvað djöfuls óyndi í mér. Ekkert hefur gengið almennilega upp og ég verð pirruð. Þá fer ég að hugsa, segja og gera undarlega, skrítna og asnalega hluti sem Sigrún skammar mig fyrir að hugsa, segja eða gera. Nú hlakka ég bara til að komast í nýtt umhverfi og gerast kúreki norðursins. Á morgun kemur hins vegar nýr dagur og þó ég sé hætt að bíða eftir nýjum tækifærum þá getur maður alla vega þóst byrja á núlli eina ferðina enn. Hver veit, kannski ég skelli mér í powergöngu eftir vaktina annað kvöld og leiti á vit ævintýranna, sjalalalala, þau (ævintýrin) enn gerast, vonum það bara.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli