Held ég byrji á því að biðjast velvirðingar á bloggleysi, netsamband i Vietnam var ekkert spes og svo erum við búnar að vera í svo stífu prógrammi hér í Kína að það hefur bara ekki gefist tími til!
Við vorum í Víetnam í rúmlega 2 vikur og heimsóttum marga staði þar sem ég ætla að reyna að segja lauslega frá hér. Komum til Saigon með rútu frá Phnom Pehn og byrjuðum á því að bóka túr til Mekong Delta næsta dag. Sigldum þar um, skoðuðum fljótandi þorp, heimsóttum bee-keeping farm, coconut candy verksmiðju, drukkum bananavín og fengum svo fílseyrafisk í matinn sem við rúlluðum sjálfar upp í hrísgrjónapappír með mintu og chili-sítrónusósu. Mmmmm, hvað það var gott! Almennt góður túr fannst okkur bara. Nenntum nú ekki að stoppa mjög lengi í Saigon, sú borg er algjört kreisíness og umferðin absólútlí trufluð. Næsti áfangastaður var svo Nha Trang sem er hálfgerður svona strand resort bær en við kunnum ágætlega við okkur þar þó enga fengjum við nú sólina.
Frá Nha Trang tókum við svo næturrútu til Hoi An, það var ömurð! Þetta átti að vera einhver voða fín lúxus rúta (kostaði reyndar bara 12 dollara) en er sjálfsagt mikill lúxus ef maður er lítill Víetnami. Ef maður er hins vegar hærri en 150 cm þá er þessi ferð algjört torture sem hún var fyrir okkur. "Rúmin" sem voru í rútunni voru einhverjir litlir hálfgerðir hólkar sem voru í talsverðum halla og plássið fyrir fætur manns var í einhvers konar hólfi undir næsta rúmi fyrir framan. Til að "liggja" beinn varð maður því að spyrna sér í og hálf standa í fæturna og hólkurinn var of þröngur til að hægt væri að hafa fæturna bogna. Maður gat því á engan hátt verið og hefði í raun verið mikið betra að sitja bara í venjulegum sætum. Þessi ferð tók litla 12 tíma yfir nótt.....þá nótt var ekkert sofið og þegar á áfangastað var komið vorum við dauðþreyttar, dauðverkjaði í kálfana af öllum spyrnunum og allar krambúleraðar. Einni mínútu eftir að rútan var svo farin áfram (hún var á leið til Hué) fattaði Ásta að hún hafði gleymt veskinu með passanum og öllum greiðslukortunum um borð í rútunni. Nett panikk sem tók við en fólkið á rútuskrifstofunni gat hringt í gaurana í rútunni sem fundu veskið. Við gátum svo komið og sótt það nokkrum tímum seinna því rútan var á leið til Hué en kom svo aftur til Hoi An.
Fyrsti dagurinn í Hoi An fór því mest allur til spillis því við þurftum að bæta upp svefninn og jafna okkur af hausverknum sem rútuferðin hafði valdið. Þegar við loksins komumst til almennilegrar meðvitundar um kvöldið og fórum að ganga um tók það okkur ekki langan tíma að verða algjörlega ástfangnar af pleisinu. Hoi An er æðislegur bær, aðalmálið þar er gamli bærinn sem er ótrúlega fallegur og friðsæll staður, húsin alveg frábær, öll frekar sjabbí en mikill sjarmi yfir þeim og sjást þar áhrif hinna ýmsu þjóða í arkitektúrnum. Maturinn í Hoi An er líka sá allra besti sem við smökkuðum í Víetnam (reyndar er fílseyrafiskurinn á topplistanum líka). Frábærar ferskar vorrúllur, Cao Lao sem er réttur sem bara fæst í Hoi An því vatnið sem er notað í þann rétt verður að koma úr einum ákveðnum brunni sem er í Hoi An, og grillaði fiskurinn í bananalaufi voru meðal þeirra dásemda sem við gæddum okkur á. Með þessu var svo mjög víða hægt að fá "ferskan bjor" að drekka en það er bjór sem er bruggaður á staðnum, er ótrúlega góður og kostar bara 25 kall glasið! Við þreyttumst aldrei á því að ráfa um í gamla bænum, skoða okkur um í hinum og þessum húsum, söfnum og hofum, setjast niður í kalt bjórglas og slaka á. Traffíkin þarna var mjög fín því í gamla bænum mega engir bílar vera og er líka lítið af vespum, flestir eru bara á hjólum og árabátum. Við létum líka sauma á okkur föt og sníða á okkur skó. Okkur langaði ekkert að yfirgefa þennan yndislega bæ, söknuðum hans strax þegar við vorum farnar og erum harðákveðnar í því að þangað verðum við að koma aftur, helst með fleira fólk með okkur!
Frá Hoi An tókum við taxa til Danang og þaðan í lest til Hué. Lestin var mjög spes, skrítin forgangsröðun i gangi þar. Sætin hálfónýt, allt frekar skítugt og sjabbí en í vagninum voru hins vegar 2 flatskjáir þar sem var verið að blasta eitthvert ömurðar víetnam-dívu-spangól! Hué náði ekki að hrífa okkur alveg, veðrið var hálfleiðinlegt og allt einhvern veginn hálfasnalegt þegar maður er svona nýkominn frá besta stað í heimi. Eftir 2 daga í Hué flugum við svo til höfuðborgarinnar Hanoi. Okkur líkaði vel við Hanoi, svona á stórborgarmælikvarða. Umferðin var náttúrulega algjör geðveiki en það var skemmtilegur bragur á borginni og gaman að ganga þar um. Fórum svo í 2ja daga ferð til Halong Bay sem var mjög skemmtilegt. Bjuggum á bát, svona gamadags "junk", sem sigldi með okkur um svæðið milli þeirra 2000 eða svo eyja sem eru um allt, fórum í könnunarleiðangur á kajak og klifruðum upp í hella. Veðrið var því miður ekki nægilega skemmtilegt, mikil þoka svo skyggnið var ekki mjög gott. Það hefði verið gaman að líta í kringum sig á þessum fallega stað í sólskini og góðu skyggni, reyndar líka skemmtilegt að hafa séð þetta í þoku sem gaf svæðinu frekar drungalegt yfirbragð. Sólin var bara ekkert með okkur í Nam, held að á þessum 15 dögum höfum við fengið einn sólardag svo tanið sem við vorum komnar með hefur heldur betur fölnað. Það rigndi líka slatta á okkur en sem betur fer alls ekki allan tímann.
Vorum mjög hrifnar af Víetnam, fólkið þar er bæði mjög elskulegt og líka fyndið og gekk okkur almennt mjög vel að eiga í samskiptum við heimamenn. Þar virðast konur vinna öll erfiðu jobbin, kallarnir eru meira í því að sitja einhvers staðar og spjalla og reyna svo að fá að keyra ferðamenn um á ýmsum faratækjum fyrir einhvern pening. Konurnar klæðast helst einhvers konar náttgöllum og inniskóm eða glimmerbolum og pinnahælum. Vespurnar eru jafn yfirhlaðnar fólki og öðrum farmi og í Kambódíu, allir liggja stanslaust á flautunni og enginn vill víkja fyrir neinum. Samt virðist þetta allt á einhvern ótrúlegan hátt ganga upp....eða svona oftast nær. Það hafa allir eitthvað til að selja manni, og eru duglegir að ota því að manni en það eru mjög fáir sem eru að betla pening.
Við ætlum aftur til Víetnam....og við ætlum aldei að keyra þar.....hver vill koma memm??
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Gaman að fá aftur blogg :)
Kemur ekki á óvart að karlarnir sitji og drekki te og láti konurnar um vinnuna, dálítil lenska á þessum slóðum. Núna er ekki spurning að maður verður að fara að taka þann stóra í lottóinu og taka upp þráðinn frá gamalli tíð.
Sorry gleymdi að kvitta en loks er komið vorveður á Norðurlandinu góða. Kveðja frá okkur úr Tjarnarholtinu Gunna
æm inn!
ég skal koma memm:) Hlakka til að sjá ykkur:)
kv: Gyða Ósk
Pant memm!!
Skrifa ummæli